Laxeldisfyrirtækið Kaldvík hefur hlotið ASC (Aquaculture Stewardship Council) umhverfisvottun fyrir tvær sjókvíaeldisstöðvar sínar í Fáskrúðsfirði, Höfðahúsabót og Fagraeyri. Með þessari viðurkenningu er staðfest að starfsemi Kaldvíkur uppfyllir strangar kröfur vottunarinnar um félagslega ábyrgð, velferð dýra og umhverfisvernd, og eru nú samtals sjö stöðvar félagsins ASC-vottaðar.
ASC-vottunin er ein virtasta vottun sem veitt er í fiskeldi á heimsvísu og krefst ítarlegrar úttektar á umhverfisáhrifum, rekjanleika, heilbrigðiseftirliti og samskiptum við samfélagið í kring.
„Við höfum það að markmiði að vera leiðandi í sjálfbærni og gæðum, og ASC-vottunin staðfestir að við erum á réttri leið.“ segir Sandra Eiðsdóttir, Gæðastjóri Kaldvíkur. „Það er mikilvægt fyrir okkur og okkar viðskiptavini að geta sýnt fram á að starfsemi okkar stenst strangar kröfur á öllum sviðum.“
ASC-vottunin hefur víðtæka viðurkenningu á mörkuðum víða um heim og styrkir þannig stöðu Kaldvíkur í samskiptum við helstu samstarfsaðila og kaupendur. Með henni er tryggt að viðskiptavinir geti treyst því að laxinn frá Kaldvík sé framleiddur á ábyrgan og umhverfisvænan hátt.
„Viðskiptavinir okkar í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum gera sífellt hærri kröfur um sjálfbærni og vottun. ASC-vottunin hjálpar okkur að mæta þeim væntingum og eykur trúverðugleika okkar á alþjóðlegum mörkuðum“ segir Sandra
Með ASC-vottun fylgir skýr rammi um vöktun og eftirlit. Þar á meðal eru reglulegar mælingar á frárennslisvatni, eftirliti með botnseti, strangar kröfur um dýravelferð og sjúkdómavarnir, og áhersla á að lágmarka losun lífrænna efna út í umhverfið. Þá er náið samstarf við dýralækna lykilþáttur í að tryggja heilbrigði fiskanna.
Einnig er horft sérstaklega til samfélagslegrar ábyrgðar. Vottunin krefst þess að fyrirtækið tryggi öruggan vinnustað, virði réttindi starfsmanna og viðhaldi góðu samstarfi við íbúa og sveitarfélög í nærsamfélaginu.
ASC-vottunin fyrir stöðvarnar í Fáskrúðsfirði er hluti af langtímastefnu Kaldvíkur um að byggja upp alþjóðlega viðurkennda og sjálfbæra starfsemi í Austfjörðum.
„Við erum stolt af þessum áfanga og lítum á hann sem hvatningu til að halda áfram að þróa og bæta starfsemina í sátt við samfélagið og náttúruna,“ segir Sandra.
Lax
Laxeldi
Heimilisfang
Kaldvík hf.
Strandgata 18,
735 Eskifjordur
Netfang
contact@kaldvik.is
© 2025 Kaldvik